Um rétt fatlaðs fólks til að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.

Um rétt fatlaðs fólks til að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.


Eftirlitsnefnd með samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hefur m.a. það mikilvæga hlutverk að gefa ríkjum leiðbeiningar, „almennar athugasemdir“ (e. General Comments), varðandi túlkun og framkvæmd á einstökum greinum samningsins og skýra hvernig þau geta staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt þeim. Eftirlitsnefndin sendi nýlega frá sér almennar athugasemdir um túlkun og framkvæmd ákvæða 19. greinar samningsins sem hefur yfirskriftina Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu. Þessi grein samningsins er mjög mikilvæg og ræður afar miklu um hvort meginmarkmið hans um að gefa fötluðu fólki tækiflæri til sjálfstæðs og eðlilegs lífs án aðgreiningar og mismununar geti náðst. Greinin hljóðar svo:

Aðildarríkin viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og með sömu valkosti og aðrir og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess greiða fyrir þessum rétti fatlaðs fólks og til fullrar þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja: 

a) að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir,

b) að fatlað fólk hafi aðgang að margs konar félagsþjónustu, s.s. aðstoð inni á heimili og í búsetuúrræðum og öðrum stuðningi til samfélagsþátttöku, meðal annars persónulegan stuðning sem er nauðsynlegur til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til að koma í veg fyrir einangrun þess og aðskilnað frá samfélaginu,

c) að þjónusta á vegum samfélagsins og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þeirra.

Í athugasemdum eftirlitsnefndarinnar varðandi greinina er m.a. lögð sérstök áhersla á eftirfarandi:

Almennt um sjálfstætt líf.

  • Fatlað fólk á rétt á þjónustu þar sem það kýs að búa og er óheimilt að binda þá þjónustu skilyrðum um að fólk búi á tilteknum stöðum eða stofnunum.
  • Fatlað fólk hefur rétt til að búa utan stofnana.
  • Skylt er að hafa samráð við fólk með þroskahömlun þegar réttinum til að lifa sjálfstæðu lífi er framfylgt.
  • Skylt er að upplýsa fólk með þroskahömlun um rétt þess til að lifa sjálfstæðu lífi á máli / með aðferðum sem það getur skilið.
  •  Stjórnvöldum er skylt að vinna að útrýmingu stofnana með skipulegum hætti og markvissum áætlunum.

Lögformlegt hæfi (e. legal capacity).

  • Réttinn til að njóta lögformlegs hæfis er afar mikilvægur til að geti notið sjálfstæðs lífs. Í því felst m.a. tækifærið til að ákveða hvar, með hverjum og hvernig fólk býr og ráða hvernig þjónustu við það er hagað.
  • Viðeigandi stuðning við ákvarðanatöku í stað forræðishyggju og forræðissviptingar.

Konur.

  • Að viðurkennt sé og viðeigandi tillit til þess tekið að fatlaðar konur þurfa að þola margþætta mismunun.
  • Skorað er á stjórnvöld að veita konum sérstakan stuðning til að þær geti notið sjálfstæðs lífs því að þær þurfa oft að búa við meiri útilokun og einagngrun.

Fjölskyldur og börn.

  • Börn eiga rétt á að alast upp í fjölskyldum sínum.
  • Fjölskyldur verða að fá upplýsingar, leiðbeiningu og stuðning, þ.m.t. fjárhagslegan stuðning.
  • Fatlað fólk sem býr sjálfstætt á rétt til að þurfa að ekki að vera of háð fjölskyldum sínum. Stjórnvöld verða að gripa til viðeigandi og markvissra ráðstafana til að tryggja þann rétt.

Almennar athugasemdir eftirlitsnefndar með samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks eru mjög gagnlegar fyrir stjórnvöld sem vilja standa vel að því að tryggja fötluðu fólki þau mannréttindi sem samningurinn mælir fyrir um og fyrir fatlað fólk til að standa vörð um þau mannréttindi sín. Það er því mjög mikilvægt að athugasemdirnar séu öllum aðgengilegar og með þeim hætti að sem flestir geti skilið þær og nýtt. Landsþing Þroskahjálpar sem fram fór í október sl. skoraði því á íslensk stjórnvöld „að láta þýða almennar athugasemdir (e. General Comments) eftirlitsnefndar með samningnum varðandi túlkun einstakra ákvæða hans og gera þær öllum aðgengilegar, einnig á auðlesnu máli.“

 

Þroskahjálp trúir því að ríkisstjórn sem tekur við völdum eftir nýafstaðnar kosningar muni verða við þessari áskorun svo skjótt sem verða má.