Starfsbraut. – Hvað svo?

Starfsbraut. – Hvað svo?

 Landssamtökin Þroskahjálp stóðu fyrir fundi í gærkvöldi sem hafði yfirlskriftina Starfsbraut. - Hvað svo?

Á fundinum var rætt um þá alvarlegu stöðu sem er vegna þeirra fáu tækifæra til náms og atvinnu sem bjóðast fötluðum ungmennun eftir að þau hafa útskrifast af starfsbrautum framhaldsskólanna. Staðan var rædd og greind og tillögur gerðar um það sem mjög brýnt er að laga til að fötluð ungmenni fái notið réttinda og tækifæra til nenntunar og framtíðar eins og sjálfsagt þykir um önnur ungmenni í íslensku samfélagi.

Fundurinn var mjög fjölsóttur og mátti glöggt heyra á fólki að þolinmæði þess gagnvart aðgerða- og úrræðaleysi í þessum málum er fullkomlega þrotin og það krefst því tafarlausra og markvissra viðbragða af hálfu ábyrgra stjórnvalda.

 Umræður á fundinum fóru fram í hópum sem ræddu eftirfarandi spurningar undir styrkri stjórn Ingridar Kuhlman, ráðgjafa:

  • Hvað þarf að laga varðandi málefni ungmenna sem lokið hafa námi af starfsbrautum framhaldsskólanna?
  • Hvernig er hægt að laga það?

Umræður í hópunum voru mjög líflegar og þar fengu allir tækifæri til að tjá sig og koma skoðunum sínum á framfæri. Í umræðum allra hópanna var mikil áhersla lögð á rétt fatlaðra ungmenna til mennunar, atvinnu, sjálfstæðs lífs og tækifæra til að fá að hafa drauma og væntingar um framtíði sína og  eins og önnur ungmenni.

Það vakti ánægju og vonir um skjót viðbrögð og úrbætur af hálfu ábyrgra stjórnnvalda að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mætti á fundinn og tók þátt í umræðum. Ráðherra fékk mjög margt að heyra sem hlýtur að vera henni mjög gagnlegt í framhaldinu en ljóst er að ráðuneyti hennar ber mjög mikla ábyrgð í þessum málum.

Á fundinum sagði ráðherra frá því að hún hefði ákveðið að skipa aðgerðahóp sem fengi það hlutverk að greina stöðu mála og gera tillögur um úrbætur og ætlaðist hún til að þessi hópur ynni hratt og skilaði af sér tillögum á næstu mánuðum. 

Margar mjög gagnlegar og áhugaverðar tillögur, ábendingar og hugmyndir komu fram á fundnum sem skrifstofa Þroskahjálpar mun vinna úr með aðstoð og ráðgjöf frá Ingrid Kuhlman. Ljóst er að það efni verður mjög gagnlegt í vinnu aðgerðahóps menntamálaráðherra og  einnig stjórn og skrifstofu Þroskahjálpar til leiðsagnar um áherslur og stefnu í þessum mikilvægu réttlætismálum.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka öllum sem tóku þátt í þessari gagnlegu og skemmtilegu vinnu fyrir þátttökuna og áhugann og þeirra mikilvæga framlag til að tryggja að samtökin verði geti verið öflugur málsvari fyrir fatlað fólk í barátttunni fyrir mannréttindum og tækifærum til sjálfstæðs og eðlilegs lífs til jafns við aðra.