Menntun án aðgreiningar - ályktun stjórnar Landssamtakanna Þroskahjálpar-

Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar lýsir miklum áhyggjum vegna upplýsinga sem fram hafa komið um að fötluðum ungmennum sem lokið hafa grunnskóla bjóðist ekki að innritast í framhaldsskóla í haust eins og önnur ungmenni sem lokið hafa grunnskóla.

Stjórnin minnir menntamálayfirvöld á að menntun án aðgreiningar og jöfn tækifæri til náms er ekki aðeins sú stefna sem stjórnvöld hafa mótað og lýst yfir, heldur er réttur til menntunar án aðgreiningar bundinn í íslensk lög og auk þess sérstaklega áréttaður í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið skuldbundið sig til að virða og framfylgja. Með fullgildingu samningsins skuldbundu stjórnvöld sig til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fötluð börn og ungmenni fái notið menntunar án mismununar og/eða aðgreiningar.

Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar því á menntamálaráðherra að grípa án tafar til nauðsynlegra ráðstafana til að öll fötluð ungmenni sem lokið hafa grunnskóla geti nú í haust innritast í viðurkennda framhaldsskóla og stundað nám við þá eins og þau hafa rétt til samkvæmt lögum og mannréttindasamningum.

Stjórnin skorar jafnframt á menntamálayfirvöld að koma tafarlaust á því fyrirkomulagi að þegar fyrirsjáanlegt er að nemandi í grunnskóla muni vegna fötlunar sinnar þurfa tiltekna þjónustu eða umhverfi þegar hann hefur nám í framhaldsskóla liggi það fyrir með nægilegum fyrirvara svo að unnt sé að gera viðeigandi ráðstafanir þannig að hann geti hnökralaust hafið nám í framhaldsskóla á sama tíma og jafnaldrar.