Grafalvarleg staða!

Grafalvarleg staða!

 Hjá Landssamtökunum Þroskahjálp var haldinn fjölmennur fundur með foreldrum ungmenna sem hafa útskrifast af starfsbrautum framhaldsskólanna. Það er ljóst að þjónustan við þennan hóp er alls ekki í viðunandi horfi og mjög brýnt að greina vandann og koma með tillögur að lausnum. Í íslensku samfélagi er námsframboð afar takmarkað fyrir fólk með þroskahömlun eftir að framhaldsskóla líkur þar sem það nær sjaldnast að uppfylla inntökuskilyrði í framhaldsnám. Þá eru atvinnutækifærin allt of fá og einsleit og oftast einungis í boði að fá hlutastörf þrátt fyrir vilja og getu margra til að vinna meira.

Á fundinum kom fram hjá mörgum aðstandendum að þeim þykir skorta mjög á upplýsingar og kynningu á því sem þó er í boði og að samhæfing milli ábyrgðaraðila virðist oft vera lítil eða engin. Aðilar vísi því oft hver á annan á meðan unga fólkið og aðstandendur þeirra bíða lengi í óvissu eftir nauðsynlegum svörum og leiðbeiningum.

Hljóðið í fundargestum var mjög þungt og það er alveg ljóst að það er löngu tímabært að taka með ábyrgum hætti á málefnum þessara ungmenna. Þau vettlingatök sem stjórnvöld hafa allt of lengi haft í málaflokknum eru alls ekki forsvaranleg og duga ekki lengur.

Ákveðið var að boða til fundar 29. ágúst nk. kl. 19.30 í húsnæði Landsamtakanna Þroskahjálpar að Háleitisbraut 13. Þar verður farið í að greina vandann betur og hvað það er sem brýnast er að laga og koma með tillögur að lausnum. Ungmenni á starfsbrautum framhaldsskólanna og þau sem hafa nýlega útskrifast af starfsbrautum eru hvött til að mæta á fundinn ásamt aðstandendum. Niðurstöður fundarins verða nýttar í áframhaldandi vinnu að málefninu þar sem meðal annars er stefnt að því að boða til opins fundar með stjórnmálamönnum og embættismönnum hjá ríki og sveitarfélögum.