Bréf Þroskahjálpar til alþingismanna í velferðarnefnd - Virkt samráð við fatlað fólk og nokkur mikilvæg réttindamál

Ágæti alþingismaður.

Landssamtökin Þroskahjálp óska þér velfarnaðar í þeim mikilvægu störfum sem þér hafa verið falin í velferðarnefnd Alþingis. Tækifæri og lífsgæði mjög margra ráðast mikið af því hvernig til tekst við þau verkefni sem velferðarnefnd fjallar um.

Við undirbúning lagasetningar sem hefur áhrif á hagsmuni, tækifæri og lífsgæði fatlaðs fólks er mjög mikilvægt að stjórnvöld hafi mikið samráð við fatlað fólk og samtök þess. Reynslan sýnir að oft er mikill misbrestur á því. Þess vegna hefur verið mælt sérstaklega fyrir um þetta í 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks, en þar segir: 

Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks.

Og í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti sl. haust og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja segir í 4. gr.:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu við að innleiða samning þennan og vinna að því að taka ákvarðanir um stöðu fatlaðs fólks skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess,  þar með talið fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

Landssamtökin þroskahjálp hvetja þig til að fylgjast vel með að stjórnvöld og þ.m.t. velferðarnefnd gæti þess mjög vel að hafa þetta samráð ávallt þegar það á við og hika alls ekki við að leita til samtakanna eftir upplýsingum varðandi stöðu, hagsmunamál og réttindi fatlaðs fólks , s.s. vegna mála sem velferðarnefnd fær til umfjöllunar.

Þá vilja samtökin hvetja þig til að kynna þér vel og greiða fyrir framgangi mála sem eru mikilvæg til að stuðla að því að fatlað fólk fái tækifæri til að lifa eðlilegu og sjálfstæðu lífi til jafns við aðra. Í því sambandi viljum við upphaf þessa þings sérstaklega benda á eftirfarandi mál:

  • Endurskoðun laga um málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustu sveitarfélaga.
  • Endurskoðun laga um almannatryggingar með hliðsjón af bókun Þroskahjálpar.
  • Lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA).
  • Lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
  • Fullgildingu valkvæðrar bókunar við samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
  • Stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar.

Á eftirfarandi hlekkjum má nálgast upplýsingar um Landssamtökin Þroskahjálp, bókun samtakanna við frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar, hvers vegna mikilvægt er að samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks verði lögfestur og valkvæð bókun við hann fullgilt og athugasemdir samtakanna við drög að frumvarpi til laga um sjálfstæða mannréttindastofnun.

 

http://www.throskahjalp.is/is/greinar/landssamtokinthroskahjalpfjorutiuara1

http://www.throskahjalp.is/is/alit-og-umsagnir/enginn-titill-7

http://www.throskahjalp.is/is/samtokin/frettir/category/1/samningursameinuduthjodannaumrettindifatladsfolks10ara

http://www.throskahjalp.is/is/alit-og-umsagnir/athugasemdir-landssamtakanna-throskahjalpar-lth-um-drog-ad-frumvarpi-til-laga-um-sjalfstaeda-mannrettindastofnun-islands

 

Bestu kveðjur,

 Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar